Fram í hugann kemur

Já nefnilega svo afar margt, Jóhanna bloggvinkona mín sagði við mig í komenti að það væri gott að eiga góða ömmu og afa og þá fóru hugsanirnar af stað hjá mér

Man fyrst eftir er ég kom til ömmu og afa, hef verið um fjögra ára og það sem er mér svo minnisstætt er að langamma Helga Beata lá í rúmi sínu orðin eitthvað lúin og veik, en átti samt mola í poka undir koddanum sínum til að gefa okkur smáfólkinu, man einnig frá þessum tíma eftir jólakökunni hennar ömmu, hún var æðislega góð.

Þegar þau voru flutt í Nökkvavoginn komum við að sjálfsögðu oft í heimsókn og man ég sérstaklega eftir jólaboðunum, jólatréð var sett á mitt gólf, Gummi frændi spilaði á píanóið og við dönsuðum í kringum tréð og sungum með, auðvitað voru borð hlaðin kræsingum þeirra tíma, gamaldags rjómatertum, randalínum, smákökum og ýmsu öðru, en maturinn var að sjálfsögðu hangikjöt með heimasoðnum grænum baunum, kartöflum og uppstúfi.

Man líka eftir búrinu hennar ömmu, sem var niður í kjallara, ég elskaði þegar amma bað mig að fara niður og ná í eitthvað, búrið var á stærð við svefnherbergið mitt í dag og í því gegndi ýmissa grasa,
eins og stórir kassar af þurrkuðum ávöxtum, sem maður laumaðist í, setti smá í kjólvasana og tróð upp í sig, en passaði upp á að vera búin að kyngja öllu er upp kom, auðvitað vissi amma alveg hvað var að gerast og hafði gaman að, hún var nefnilega prakkari mikill.

Amma og afi voru alla tíð afar sparsöm og það var synd að henda hvort sem það var matur eða föt, en nísk voru þau ekki, ég lærði heilmikið af þeim eins og bara af mömmu og pabba því þetta var bara svona í þá daga og ég fylgi þessu enn í dag, en þau leifðu sér það sem þeim langaði til afi fór í laxveiði og man ég eftir mörgum skemmtilegum ferðum í Víðidalsá sem var eiginlega áin hans afa, enda falleg á.

Man þegar ég var ófrísk af öðru barninu mínu kom upp í Belgjagerð mætti afa fyrir utan hann var að koma í vinnu eftir hádegisblundinn sinn og hann faðmaði mig horfði svo á mig og sagði áttu enga kápu tátan mín, ég varð víst eitthvað undrandi, hann tók upp veskið og rétti mér nokkra seðla og sagði: "Fáðu þér kápu fyrir þetta tátan mín", ég náttúrlega knúsaði hann fyrir, en mig vantaði enga kápu, en kápu varð ég að kaupa, maður gerði nefnilega eins og afi lagði fyrir mann, málið var að það var hásumar og afar heitt úti svo ég var bara í mínum óléttukjól, en auðvitað átti ég að vera í kápu það var svona snyrtilegra, fór og keypti mér létta kápu og notaði hana í botn sko er ég var orðin léttari.

Afi og amma voru klettarnir í mínu lífi, þau voru alltaf þarna og elskuðu mig og öll hin barnabörnin afar mikið, ég átti ætíð athvarf hjá þeim, það var hlustað á, ráðlagt og spjallað um málin.

img_0009_new.jpg

Takk elsku amma og afi, ég elska ykkur afar heitt.
Milla
Heart

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.