Fólk sem var öðruvísi að mati annara.
26.12.2007 | 11:35
Fyrir tugum ára síðan, kynntist ég konu sem var öðruvísi að mati annarra.
En á hvers færi er það að meta hver er eins og hann á að vera?
Þessi kona er löngu farin yfir í það tilverustig sem hentar henni betur,
svo ég segi þessa sögu með góðri samvisku.
Við skulum kalla hana Dísu. Ég kann ekki söguna um hvar hún er fædd og uppalin,
en ég kynntist henni er hún var orðin fullorði. Dísa hafði þá verið þurfalingur,
(sem kallað var svo) alla tíð en var þarna sloppin frá því og bjó í borg.
Það æxlaðist þannig til að Dísa kom oft á mitt heimili og smá saman lærði
hún að treysta okkur, en er ég kynntist Dísu, tók hún aldrei mat af diski,
öðruvísi en að hrifsa hann til sín, er hún hélt að engin sæi, sem var ekkert skrítið
því ætíð var henni gefið að borða með hundunum úti í fjósi.
Dísa þekkti ekkert annað en vanvirðingu, og fannst hún sjálfsög,
hún átti ekki að hennar mati annað skilið.
Ég átti lítil börn er þetta var og elskaði hún og dáði þau,
hún þessi elska söng og las fyrir þau, en ætíð hélt hún að það væri bannað,
þegar hún horfði á mig spurnaraugum brosti ég bara mínu blíðasta og
þá vissi hún að alt væri í lagi.
Ætíð hafði maður sælgæti, smákökur og annað góðgæti á borðum
til þess að hún gæti fengið sér er hún vildi.
Eitt sinn var dansleikur í samkomuhúsinu, Dísu langaði til að fara, það vissum við,
en hún fór ekki fram á það. Nei ekki hún Dísa mín.
Við spurðum hvort hún vildi ekki fara á dansleik? Jú takk sagði hún.
Þá var hafist handa hún fór í bað, ég lánaði henni kjól
ekta sparikjól, síðan málaði ég hana og greiddi.
Ekki hef ég séð hvorki fyrr né síðar sælli konu, en hana Dísu þetta kvöld.
Við báðum gott fólk um að fylgjast með henni,
svo engin væri að stríða henni á dansleiknum.
Allt fór vel og Dísa mín talaði ekki um annað í marga daga á eftir.
Þessi saga er bara ein af mörgum og sumar eru verri en þessi.
Ég þakka fyrir þau forréttindi að hafa fengið að kynnast þessu af eigin raun.
Takk fyrir mig.
Athugasemdir
Hver er það sem getur sagt að fólk eigi að vera svona frekar en hinsegin ? Mikið er þetta falleg saga og ég er viss um að þú hefur glatt hana meir en nokkur annar
Ragnheiður , 26.12.2007 kl. 13:03
Takk Ragga mín, en við vorum nokkrar sem glöddum hana vona ég.
Nei það er engin sem getur sagt að maður eigi að vera svona eða hinsegin. Að mínu mati var þetta oft á tíðum hrein og bein mannvonska
hér áður og fyrr, hvernig látið var við fólk.
Já og ætli það sé bara ekki svoleiðis enn þá.
Knús á þig Ragga mín.
Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 26.12.2007 kl. 13:58
Á heimili ömmu og afa á Bjargi á Húsvík var gömul kona sem hét Jóna, hún var niðursetningur í sveit en eftir að hún kom til ömmu fór hún ekki aftur. Okkur barnabörnum ömmu þótti óendanlega vænt um hana og henni um okkur. Hún svaf í herbergi innaf eldhúsi og spann á rokk og prjónaði alla daga. Hefði ekki viljað missa af því að kynnast henni. Kær kveðja til þín. Enginn getur sagt hvað er normal og hvað ekki.
Ásdís Sigurðardóttir, 26.12.2007 kl. 18:30
það er rétt hjá þér Ásdís mín og hugsaðu þér hvað þú átt gott að hafa fengið að kynnast henni Jónu.
Kær kveðja þín Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 26.12.2007 kl. 21:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.