Á fjörur mínar rak gullmoli.

Látið yður eigi fyrir þykja að eg spyrji hvað
þér mæltuð til mín, því að eg man eigi gerla.

Hér eru hittir hinir þykkheyrðu og þeir sem trúa ekki tíðindum
ennfremur þeir sem vilja samsinni og síðan þeir sem heyra þótt
þeir látist daufir. hugað er að óbreytanlegu smáorði og kynnst
tilhlýðilegu athæfi og réttu orðfæri við konungshirð.

Ha segjum við stundum þegar við heyrum ekki hvað sagt er við
okkur, og ætlumst þá til að viðmælandinn endurtaki orð sín.
Það gegnir eiginlega svipuðu hlutverki og bakk-takkinn á
segulbandi eða myndbandstæki.
það er líka til að við segjum ha til að láta í ljós undrun, þótt
við höfum heyrt ágætlega hvað við okkur var sagt, og gefum
þá til kynna að okkur sé það sem sagt svo framandi  að nú
þurfi að endurtaka til að við skiljum almennilega,--líkt og þegar
Njáll var á þingi og fékk frétti af vígmennsku Þórðar sonafóstra síns,
og ,, lét segja sér þrim sinnum". hlýtur þá Njáll ekki að hafa sagt ha?

Ha er líka notað þegar menn vilja fá svar við einskonar spurningu,
þó einkum jákvætt svar, sem getur þess vegna falist í því að svara alls ekki.
Spurningin er þá eiginlega bara í plati, kennd við ,,retorík" í latínu, og mætti kalla málskrúðsspurningu hjá okkur: ,,ætli henni líkist ekki líka á mig, ha? spyr Egill
vonbiðill föður sinn í Manni og konu, og ætlast til að sér sé samsinnt.
Stundum getur ha-ið líka falið í sér að sá sem notar það hafnar eða neitar
staðreynd eða bón, til dæmis langdregna ha-ið, haaaaa..., oft með litlu
e-hljóði í endann. Þetta dregur eiginlega í efa að það sem sagt hefur verið
hafi í raun og veru verið sagt og losar þar með þann sem hlustar undan allri
skyldu og tilætlan: reyndu aftur! einsog tölvan segir stundum við mann.
Ha? er afar daglegt mál, en líka furðulegt orð að mörgu leiti og fyrirbrygði
í náttúrunni eða umhverfi.
Það er hægt að segja hestur og benda á hest úti í haga og segja: ,,Hér er hestur"
en það er ekki hægt að benda neins staðar á ha og segja: ,,hér er ha"
Orðið er alltaf eitt sér og hefur merkingu, og er þannig öðruvísi en önnur
smáorð, í-á-eða-og, sem næstum aldrei geta staðið út af fyrir sig.
Orðið er er notað eingöngu í þágutungumálsins sjálfs, sem hjálpartæki í samræðunni,
og er eiginlega á mörkunum þess að teljast vera orð.
Málfræðingar flokka það sem upphrópun, en það er samheiti á ýmsum fyrirbrygðum sem málfræðingar vita ekki alveg hvernig á að flokka.
Ein kenningin um uppruna er- auðvitað- sú að ha sé orðið til úr hvað einhvern tíman í fyrndinni,
sé einhverskonar stytting. Reyndar merkja setningarnar hvað? og ha? ekki endilega
það sama. Að minnsta kosti getur hvað? varla komið í stað ha? í spurningunni hans Egils úr Manni og konu, og hvað? hefur það umfram ha? að með því er hægt að spyrja
um einstakt atriði úr tali annars á sama hátt og hver?-hvaða?- hvenær?
Nú eru orðin mjög lík aftur í fornnorrænu, vegna þess að hvað var þá borið fram með
sunnlenskum framburði, w-i eins og í ensku.
Þessi hljóðbreyting hlyti hinsvegar að hafa verið einstæð, sem hljóðbreytingar eru allajafna ekki, og að auki furðulega lífsseig.
Þetta orð ha er hinsvegar til alveg eins og í svipaðri merkingu í færeyskri
og nýnorsku og sænsku og dönsku, og það vekur líka efasemdir
um skyldleika við hvað, að svipað orð ha-inu er líka til í ýmsum tungumálum utan Norðurlanda, að vísu annarra merkingar en hjá okkur.
Íslenska ha-ið virðist annars ekki láta hljóðbreytingar annarsstaðar í tungumálinu
á sig fá yfirleitt. Það gerðist á fyrri öldum í málsögunni að gamalt langt a varð að tvíhljóða:á.
Íslendingur sem fyrir breytingu hét ,,A-a-arni Jo-o-onsson" hét eftir breytingu ,,Áúrni Joúnsson". Og samkvæmt því hefði gamalt ha? með löngu a-i, átt að verða að há í nýíslensku,
alveg eins og önnur svokölluð upphrópun, ,,j-a-a," varð a' ,,j-aú", já.
Það er ekki raunin, þótt það formhafi sýnilega orðið til fyrr á öldum-- í orðabók Cleasbys og Konráðs segir að fyrir austanhafi verið til tvíhljóð í orðinu ha frámá næstsíðustu öld.
En það týndist aftur, og ha? varð áfram ha?
Það er líka sérkennilegt að hljóðin í þessu orði, sem hlytir ekki forsjá almennra hljóðbreytinga,
eru eins einföld og hægt er í nokkru tungumáli.
Í rauninni er hjér bara eitt hljóð, a sem fyrst er borið fram á röddunnar, næstum hvíslað,
og síðan raddað einsog sérhljóð á að vera. Og þetta sérhljóð er að auki sérkennalausast sérhljóðanna-- öll hin eru kringdari eða lokaðri eða frammæltari en a-ið, sem eiginlega er einhverskonar frum-sérhljóð. Fræðimenn um barnamál segja að á fyrsta stigi
málþróunar skynji börn aðeins mun tveggja hljóða, Sérhljóðsins og Samhljóðsins,
og það er enginn tilviljun að þetta eina Sérhljóð barna er túlkað sem a í tungumáli fullorðinna:
Í fyrstu orðunum sem börn mynda greinist Samhljóðið frá Sérhljóðinu með því að hljóðstraumur
úr opnum munni er rofinn með því að loka munninum: ma-ma, ba-ba eru á þann hátt
fyrstu orðin sem börn gefa merkingu úr hjali sínu.
Þetta gefur í skyn að ha-ið sé af annarri gerð en venjuleg orð, og að það kunni að vera tilviljun
að orðið hvað? líkist ha? í okkar máli.
Getur verið að undirstaðan sé hermiorð, þar sem líkt er eftir tali manna?- á svipaðan hátt og menn babbla með bla-bla? Með því að herma eftir tali annars væri þá í rauninni
verið að byðja viðmælanda um endurtekið tal, annað hvort það sama og hann sagði áður eða
 það sama og mælandinn var sjálfur að láta út úr sér.
Þegar Egill segir ha? við föður sinn úr Manni og konu er hann með nokkrum hætti að biðja föður sinn að endurtaka það sem Egill var nýbúinn að segja, að Sigrúnu hlyti að lítast á sig.
Ágiskanir af þessu tagi hafa þann galla að erfitt er að smíða úr þeim haldbæra kenningu, en að vísu þann kost að verða seint afsannaðar.
Þessi ,,bakktakki" ha-ið, lýsir tilætlunarsemi og er ekki sérlega kurteisislegur, enda oft-oftast?-
aðrar ástæður að baki ha-inu en sljóvgan heyrnar. Þetta má sannreyna með konungsskuggasjá, kennslubók í mannasiðum og stjórnfari sem sett var saman í Noregi á
því méli að heldrimenn voru að temja suðræna hattprýði. Það eru meðal kennslugreina
leiðbeiningar um það hvernig ráðlegast er að haga sér við hirðina, og þar er lesandi
áminntur um að læra tryggilega hversu gengið skal fyrir konung.
Skaltu þá:

     Hendur (...) þínar svo láta liggja er þú stendur nærri konungi að
     hin hægri greip spenni um hinn vinstra úlflið, og lát síðan hendur
     þínar í tómi rekjast niður fyrir þig, sem þeim er hægast.

alveg eins og fyrirmenn gera ennþá á myndum af sér í blöðunum.
Síðan á maður að hneigja sig ,,lítillátlega" og heilsa með þessum orðum: ,,Guð gefi góðan dag herra konungur." Þá er á það hlýtt sem jöfur hefur að segja, og svo kemur þessi ráðlegging:

    En ef svo kann til að verða að konungur mælir til þín nokkur orð
    þau er þú nemir eigi, og þarftu annað sinni eftir að frétta, þá skalt
    þú hvorki segja ha né hvað heldur skalt þú ekki meira um hafa en
    kveða svo að orði: ,,Herra!" En ef þú vilt heldur spyrja með
    fleiri orðum: ,,Herra minn! látið yður eigi fyrir þykja að eg
    spyrji hvað þér mæltuð til mín, því ég nam eigi gerla." Og lát
    þig þó sem fæstum sinnum það henda að konungur þurfi oftar en
    um sinn orð herma fyrir þér áður en þú nemir.

Semsagt: Ekki ha? við kóngafólk.

Þetta er einn kafli úr bókinni Málkróka, sem rak á fjörur mínar í gær.
Bókin er eftir Mörð Árnason og telur þætti, um Íslensku --ambögur,
orðfimi og daglegt álitamál.
                                          Góðar stundir.




 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulla Dan

ÓMG

Þetta er einmitt orðið sem mig vantaði ofboðslega þegar við fluttum hingað út!!! HA???

Danir segja "Hvad" (Borið fram "Vaððð"  og það hljómar einganveginn vel.

Nú bið ég fólk um að segja orðið eða setninguna "én gang til" og brosi svo undur blítt.
En það vantar HA hingað út!

Hafðu það gott í kvöld

Hulla Dan, 22.8.2008 kl. 17:40

2 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Seigi það sama og Hulla, Danir kunna ekki að tala, sorry, þeir æla þessu einhvernveiginn útúr sér og kunna ekki að seigja R, bara ekki fræðilegur.

Kærleiksknus Milla mín

Kristín Gunnarsdóttir, 22.8.2008 kl. 18:28

3 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Nú held ég að það hafi gengið alveg fram af ykkur.
en ha er í raun dónalegt orð eða eins og segir tilætlunarsamt.
knús
Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 22.8.2008 kl. 20:23

4 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Finnst alltaf ljótt að segja ha..  þrátt fyrir að ég sé alin upp við það, ég hef vanið mig á að segja fyrirgefðu og þá hváir fólk og horfir á mig eins og naut á nývirki. 

Ía Jóhannsdóttir, 22.8.2008 kl. 20:58

5 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Ía mín ég segi líka fyrirgefðu og fæ oft sömu viðbrögð og þú, en ef allir mundu nú hætta að segja ha þá mundi viðhorfið breytast.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 22.8.2008 kl. 21:02

6 Smámynd: Erna

Verð að koma með smá athugasemd. Ég þarf oft að segja Ha vegna heyrnarskerðingar ég nota heyrnartæki en oft duga þau ekki í samtölum og til að geta verið með á nótunum þá verð ég bara að segja Ha. Mér finnst hræðilegt að heyra að ykkur finnist það dónalegt.

Erna, 23.8.2008 kl. 00:00

7 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Erna ég er að djóka, en lestu bloggið það er bara alveg frábært,
ég segi sjálf oft ha.
Knús til þín bestust.
Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 23.8.2008 kl. 08:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband