Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2016

Veit ekki hvað á að nefna þessi fyrirbæri

Búin að skoða það sem ég set á blað hér nokkuð lengi, veit ekki hvort aðrir hafa upplifað þessi fyrirbæri eða eru kannski bara meðvirkir því.

Þegar við eignumst börn gerum við allt sem við höfum kunnáttu til svo þau fari vel gerð út í lífið.
Við kennum þeim hvað er rétt og rangt, að segja alltaf sannleikann, vera góð við alla, bera virðingu fyrir öllu fólki, umhverfi okkar í heild sinni og númer eitt sjálfum sér.

Við verndum þau eins vel og við getum, segjum aldrei neitt niðrandi um þau, upphefjum eigi sjálfan okkur á kostnað þeirra og ég gæti lengi talið.

Nú þau verða unglingar síðan fullorðin, gifta sig, eignast börn, skapa sér heimili og halda að allt sé svo fellt og slétt og sem betur fer er það í flestum tilfellum.

Ætla ekki að fara út í þá sálma hvort þau hlusta á foreldra sína því í flestum tilfellum gera þau það ekki þó það geris sem betur fer, það er leitað til foreldranna ef þeim finnst þörf á því og sum börn eru það vel að guði gerð að þau þurfa ekki hjálp.

Nú á meðan þau vaxa úr grasi eldumst við foreldrarnir en njótum að sjálfsögðu barna og barnabarna mjög mikið, allavega ætti það að vera þannig.

Þá kemur það sem ég hef orðið vör við á mörgum stöðum, af börnum, barnabörnum og öðrum fjölskyldumeðlimum að foreldrarnir eru notaðir til að upphefja sjálfan sig eða að fólkið þeirra heldur að gamla fólkið sé elliært, viti minna en ekki neitt, hlegið, kannski góðlátlega svona til að taka broddinn af því sem sagt er eða bara brosað hallærislegu brosi og allir hlæja eða brosa með gerandanum, það versta við þetta er að ég held að gerendur geri sér ekki grein fyrir hvernig þeir haga sér og hversu niðurlægjandi þeir eru.

Flestir foreldrar láta sér þetta lynda, eru þræl meðvirkir með þessum yndislegu fjölskyldum sínum, hitta þau aftur og aftur til að fara heim með sár á hjarta, sárið er bara sett í sárahólfið í hjartanu þeirra og haldið áfram eins og ekkert sé.

Þessi mál hafa verið viðruð hjá fólki í kringum mig og ég segi hiklaust hættið þessarri meðvirkni, skapið ykkur ykkar eigið líf, það er fullt af skemmtilegheitum að gerast í kringum okkur öll, lifum lífinu núna.

Sumir eru svo lánsamir að eiga gott samband við fjölskyldur sínar allavega hluta af þeim og takið eftir það er ekkert til að þakka fyrir, það á að vera sjálfsagt það er að segja ef allir bera virðingu fyrir hvort öðru.

Datt svona í hug að skrifa um þetta því nýverið bar málið á góma í húsinu sem ég bý í.
Gæti sagt margar sannar sögur um þessi mál en læt það eiga sig.
Þeir sem finna sjálfan sig í þessum orðum, sem eru afar dipló, skoða kannski sitt ynnra og gera eitthvað í málunum, en það er alveg þeirra, mér kemur það allavega ekki við.

Kærleik til allra minna vina og ættingja kissinnocentkiss


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband