Það sem kemur upp í hugann

Þegar ég er ein að hlusta á mína tónlist reikar hugurinn í allar áttir og mér líður afar vel. Í gær var ég í ýmsu smádútli, Milla og Ingimar komu í hádegissnarl, áður en þau fóru tók Ingimar inn restina af dótinu úr bílskúrnum, þar á meðal var jólaskrautið og hugurinn reikaði aftur í tímann.

Man svo vel eftir þessum jólum, held að það sé vegna þess að hann Ingvar elsku frændi minn sem bjó hjá okkur var á Tröllafoss og nýkominn frá hinni stóru Ameríku þar sem allt fékkst, hann kom með epli, appelsínur, sælgæti og allar jólagjafirnar handa okkur, man samt best eftir eplalyktinni hún var mögnuð um allt hús, í dag kaupir maður bara kerti með eplailm og er alsæll því lítil er lyktin af eplunum í dag.

Nú ég fékk að taka þátt í jólaundirbúning með mömmu og Ellen sem var dönsk húshjálp, en var okkur systkinunum sem besta móðir og vinkona, bakaðar voru smákökur í stórum stíl, randalínur og annað góðgæti, smákökurnar voru mikil freisting fyrir okkur Ingvar frænda og mættumst við oft í búrskápnum á kvöldin til að næla okkur í nokkrar kökur, verst var að mamma hafði andvara á sér og kallaði oft fram og spurði hvað við værum að gera, nú við vorum að fá okkur vatn að drekka eða einhverja álíka afsökun bárum við fram.

Þá var við lýði að taka allt og þvo, strauja, stífa svo ég tali nú ekki um veggi og gólf, skipt var á rúmum á aðfangadagsmorgun allir í bað og svo í sparifötin klukkan 5 sátum svo eins og myndastyttur þar til mamma opnaði inn í stofurnar kl 6 og tendraði jólatréð.

Man hvað við voru óþolinmóð eftir að fá að opna pakkana, en fyrst þurfti að borða það var forréttur, síðan rjúpurnar sem tók pabba og Ingvar frænda heila eilífð að borða því þeir þurftu sko að sjúga beinin vel áður en þeir fengu sér bringurnar á diskinn með öllu tilheyrandi, eftirrétturinn kom síðan þá var eftir að bera allt fram vaska upp hella á kaffi þá var hægt að setjast niður  til að opna pakkana.

Síðan voru endalaus jólaboð, böll og annað skemmtilegt fram að gamlárskvöldi.

Ég elskaði þessi jól, en mikið elska ég líka jólin í dag, ekkert verið að stressa sig á hreingerningum upp um alla veggi, bakað í lámarki, jóladagur orðin náttfatadagur, eldaður mikill og góður matur sem hægt er að fá sér af er maður vill, lesið, spilað, hlustað á tónlist og spjallað, ekkert stress bara yndislega gaman.

Eitt er sem við skulum ekki gleyma og það er að hlú að þeim sem minna mega sín því þeir eru margir í dag rétt eins og er ég var smástelpa á árunum eftir stríð. Munurinn á þessum árum er sá að í þá daga gerðu fáir eitthvað til að bjarga ástandinu menn fóru á morgnana niður á bryggju til að  vita hvort einhverja uppskipunarvinnu væri að hafa oft þurftu margir frá að hverfa og það var engin björg í boði önnur en að bjarga sér sjálfur, en þá voru kröfurnar ekki eins miklar og þær eru í dag.

Ég veit að það er afar erfitt hjá mörgum, en reynum að vera glöð og þakklát við eigum allavega hvort annað , það er engin skömm að vera fátækur.

Kærleik til ykkar allra
Milla
Heart


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Falleg færsla Milla mín

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 16.11.2010 kl. 08:03

2 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Takk Ragna mín

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 16.11.2010 kl. 08:37

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þú ert yndisleg Milla mín. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.11.2010 kl. 09:31

4 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Sömuleiðis Ásthidur mín

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 16.11.2010 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband