Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Hugleiðingar II

Einhver var að tala um súpu um daginn og þá datt mér í hug grænubaunasúpan sem mamma gerði svo oft á sunnudögum handa okkur en í þá daga er ég var að vaxa úr grasi var ætíð á sunnudögum súpa í forrétt síðan kjöt með öllu tilheyrandi og desert á eftir og ef ég/við borðuðum ekki súpuna fengum við ekki kjöt eða desert, en þessi grænubaunasúpa var búin til úr heimasoðnum grænum baunum bökuð upp með smjörkúlu og soðið notað af grænu baununum slatti af rjóma settur út í og böns af grænum baunum og mér fannst þetta vægast sagt frekar ógirnilegt, en lét mig hafa það svo ég fengi kjöt og desert, þarna var verið að troða í mann allt of miklum mat því svo fékk ég að drekka í kaffitímanum og það voru sko kræsingar síðan kvöldmatur.

Ég og Dóra fórum í bæinn í dag ókum niður Laugarveginn síðan niður Skólavörustíginn þurftum að fara í litir og föndur sem er þar sem Voge var það er aldeilis hægt að fá föndurefnið á þeim stað.

Ég settist á bekk fyrir framan hegningahúsið horfði upp og niður þessa yndislegu götu og vitið þið að hún hefur lítið breyst síðan ég man eftir henni fyrst, jú aðrar verslanir eru komnar í sum húsin, snyrt og lagað eins og gengur og gerist, elska þessa götu.

Það er annað, er ég kem akandi framhjá Hallgrímskirkju til hægri Njarðargötuna og niður Skólavörustíginn á þeim stutta spotta eru allt ný hús, búið að rífa Þórsgötu eitt þar sem langamma mín átti heima, er svo sem löngu búin að sjá það, en þurfti að rífa öll þessi gömlu hús kannski er ég bara svona gamaldags að ég vil bara halda í þetta allt, allavega þé elska ég þennan borgarhluta og alla leið vestur í bæ, en það er svo allt önnur ella.

Man núna eftir mat sem mér fannst rosa góður og var hann ætíð eldaður þegar hann kom í hús alveg nýr, en það var síld, kartöflur og rúgbrauð mikill veislumatur það, en held að ekki margir borði bara soðna síld í dag.
Svo ég tali nú ekki um grásleppuna vel signa, rauðmagan, krabba og humar en þetta keypti pabbi allt af trillukörlum sem réru út frá Ægissíðunni.


Hugleiðingar

Það er gott að hugsa tilbaka og íhuga hvernig þetta var alltsaman, nú alveg frá því að ég man eftir mér þá var aldrei talað um að sykur og allt sem úr honum er unnið væri óholt, fitandi og orsakði sjúkdóma af ýmsu tagi, maður kepptist við að moka þessum óþvera í sig og ekki var talað um að feitur reyktur sauður væri hreinlega bráðdrepandi ásamt ýmsum öðrum matvörum.

Man nú ekki svo gjörla hvenær unnar kjötvörur komu á markaðinn en var eigi há í loftinu er ég fór út í búð og keypti álegg sem þá var skorið niður í forláta áleggshnif og eftir því hvað maður vildi fyrir mikið.

Man hvað ég var feginn þegar fóru að koma viðbit sem áttu að vera svo holl og minna fitandi en smjör hugsið ykkur maður lét heilaþvo sig á sekúndubroti í einu og öllu því vísindin hlytu að fara með rétt mál nú svo kom þetta með kókið, hangikjötið og margt annað sem ég alla veganna var svo slungin að fara á bak við skynsemina og taldi sjálfri mér trú um að þetta væri nú bara vitleysa það hentaði mér betur því þetta var svo skrambi gott.

Komst að því fyrir nokkrum árum að óhollara er að borða skötu með hamsatólg/mörfloti heldur en hangikjöt, en allt er gott í hófi.

Málið er að við heilaþvoum okkur og höldum að við séum endalaust ung, hraust og sterk og svo eigi einnig að vera með innyflin okkar, það er bara ekki reyndin og það þýðir ekkert að hugsa þetta kemur ekki fyrir mig eða mína.

Sagt er að heilabúið sé að minnsta kosti eitt ár að afvenja sig þeim ljótu siðum sem við erum búin að venja hann á þannig að það er ekkert skrítið að svo margir gefist upp á að breyta um lífsstíl og þar á meðal er ég.
Hef verið að huga að því hvað veldur því að maður dettur í pyttinn jú hjá mér er þetta fíkn í mat, brauð, kökur og stundum í bara allt þó mér finnist það ekki gott það heitir víst að vera með fullan munn fíkill ( veit það ekki annars)

Núna stend ég á vegamótum (eiginlega fyrir mörgum árum) að annað hvort tek ég mig á eða fer sex fetin (sko niður) ég ætla ekki að fara þá leið heldur að taka mig á, sjáum svo hvernig það gengur og mun örugglega blogga um það síðar.

Gangi okkur öllum vel sem eru að breyta um lífstíl og tökum gleðina á þetta og ekki sakar að hafa hjálp frá Nutramino heilsuvörunum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband