Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

Millibilsástand

Já það er millibilsástand á mér þessa daganna, er hjá Millu, Ingimar og ljósunum mínum, tölvan hér er að sprengja allt af sér eða eitthvað svoleiðis kemst ekki vel inn á facebook, svo ég set hér inn smá færslu til að láta vita að ég sé alveg sprelllifandi. Á Húsavík eru mærudagar, bærinn er fullur af fólki og við erum afar stolt af okkar skreytingum svo ég tali nú ekki um móttökurnar og allan matinn sem fólk getur fengið sér, já bara hreint út um allan bæ. hér er yndislegt að vera og svo mikið að gera að hjá mínu fólki þar sem Milla mín er að vinna í Túrista þjónustunni og Ingimar er að selja fisk og franskar niður á bryggju. Ég fer á eftir að sækja englana mína fram í Lauga þær ætla að fara á ball með SOS sem er sko HLJÓMSVEITIN. Þær eiga svo að vinna á morgun, en hvað með það, maður gerði nú annað eins er ungur maður var.

Vonandi eftir helgi verður farið í að mála hjá mér í nýju íbúðinni, get nú farið að setja upp í skápa í eldhúsinu og í svefnherberginu er málningu hefur verið komið á veggi og loft þar, hlakka rosa til. Nú ég fæ síminn og allur pakkinn verður kominn eftir helgi, en mun ekki tengja tölvuna fyrr en búið er að mála þangað til verð ég ekki mikið á ferð um netið.

Eigið yndislega daga dúllurnar mínar
Milla


Töfrum klæddir dagar.

Sporðdreki:
Njóttu augnabliksins, því allt sem þú snertir
verður að töfrum.
Nú eru tækifærin svo margvísleg að þú hlýtur
að finna eitthvað við þitt hæfi


Að mínu mati eru tækifærin ætíð til staðar, það þarf bara að sjá þau, fyrir mig sem er komin á launin þið vitið eru tækifærin ótal mörg ég þarf einungis að grípa þau sem ég vil nota. Í gærmorgun hringdi dóttir mín og bauð mér á Eyrina og ég var fljót að segja já, lagt var í hann um 12 leitið, dagurinn var magnaður, yndislegt veður, allir svo glaðir sem maður mætti og fólk óspart á brosin sín. Á heimleið komum við við á Laugum til að taka englana mína með, en þær ætla að hjálpa til við flutninginn sem verður vonandi á sunnudaginn, ef þetta eru ekki töfrar þá veit ég ekki hvað.

Nú við fórum heim í hálftóma húsið, sem var mitt og þar héldu ljósin mín tískusýningu, fóru í öll fötin sem keypt voru á þær og gleðin skein úr augum þeirra, eru þetta ekki töfrar?

Það er eitt sem margir eru ekki meðvitaðir um og það er að ástin birtist í svo mörgum myndum, ekki endilega að við séum ástfangin í karli/konu heldur umhverfinu, lífinu og því sem er í kringum okkur sú ást er tær og yndisleg fer ekki neitt, eins og er maður missir niður ást á mannveru, en það er nú eðlilegt því mannfólk, flest skilur ekki hvernig á að koma fram í samböndum, eða lífinu í heild.

Ég elska lífið, allt mitt fólk, og það er ekki verra að vera ástfangin í ??????????????????

Njótið helgarinnar
Milla


Gaman gaman.

Einu sinni hefði mér þótt afar leiðinlegt að standa í flutningum, það var þegar ég ríghélt í hvern hlut sem ég átti, en nú er öldin önnur, það er svo gaman að vera að flytja og losa sig við alla gömlu orkuna sem fylgir gömlu hlutunum sem ég hef sallað að mér í tímana rás. Nú sit ég hér í gömlu íbúðinni minni það er búið að pakka öllu sem ég ætla að eiga allt annað er komið á haugana eða í nytjamarkaðinn hér í bæ ekki nóg með það, allt er farið upp í hús nema stóru hlutirnir sem ekki eru nú margir, en þeir fara um helgina og þá flyt ég til Millu minnar þar til ég fæ íbúðina fyrsta ágúst.

100_9768.jpg

Tveir hjálparkokkar, frænkurnar Aþena Marey og Friðrikka

100_9769.jpg

Hálf tómlegt orðið í tölvuverinu

100_9772.jpg

Ekki líkt því sem áður var

100_9777.jpg

Þarna er einn kassi svona rétt til að henda niður smádóti

100_9773.jpg

Tómlegt sæta hornið mitt

100_9774.jpg

Ekkert í borðstofunni 

100_9775.jpg

Fékk náðasamlega að hafa kaffikönnuna, pappadiska og smá annað

Ætla ekki að lýsa því hvað ég hlakka til að koma mér fyrir á nýja
staðnum, það verður bara yndislegt og ljósin mín ætla að hjálpa
ömmu, englarnir mínir verða farnar suður, en þær eru búnar
aldeilis að hjálpa ömmu sinn.

Gaman að sýna ykkur svona hráa íbúð og svo mun ég birta ykkur
myndið frá nýja staðnum og það verðu sko breyting.

Knús í allra hús.


Ábyrgðarstaða.

Sporðdreki:
Öllum breytingum fylgir nokkurt rót. Af hverju ekki núna?
Taktu að þér ábyrgðarstöðu og heppnin verður með þér.


Já hvað er nú það, tel mig hafa verið í ábyrgðarstöðu allt mitt líf og verið afar heppin. Nú ég átti afar skemmtilega æsku og unglingsár með öllum þeim uppákomum sem þeim tilheyra, frábær ár, nú svo fullorðnast maður giftist og eignast börn, ég giftist reyndar tvisvar, en hvað með það, svona er lífið.

Tel það vera þá mestu ábyrgðarstöðu sem nokkur getur fengið að ala upp börnin sín og það er yndislegur tími, nú þau fullorðnast og eignast börn sem ég tek á móti með allri þeirri ást sem til er meira að segja taldi ég að maður gæti ekki elskað meira en þegar maður eignast börn sjálfur, en það er bara þannig, allavega hjá mér, er að springa af ást til þeirra allra, einnig barna og tengdabarna

Öllum breytingum fylgir nokkurt rót.
Af hverju ekki núna, segir stjörnuspáin
.


Breytingarnar eru hálfnaðar það sem ég á eftir er að flytja og það gerist eftir hálfan mánuð. Við svona umrót kemur ábyrgðin mun sterkari inn og huga ber að barnabörnunum sem ekki eru að skilja hlutina eins og þau eldri, ég er búin að vera í því að svara spurningum á þann hátt sem ég tel að þau skilji og ljósunum mínum hér hlakkar bara til að hjálpa ömmu að gera fínt í nýja húsinu eins og þær kalla það og þær munu svo sannarlega fá að gera það.

Taktu að þér ábyrgðarstöðu og heppnin verður með þér.

Eins og ég tel upp hér að framan þá er ég löngu búin að fá ábyrgðarstöðuna og heppnin er fólgin í fólkinu mínu, það er bara sú mesta heppni sem nokkur getur upplifað, þau eru yndislegust af öllu yndislegu.

Gaman að segja frá því að ég hef verið að fylgjast með barnabörnunum mínum taka á sig ábyrgð, alveg án þess að þau séu beðin um það og stórkostlegt er að horfa upp á þau höndla ábyrgðina með sóma, eitt sem við þurfum að passa upp á það er að leifa þeim að njóta sín, bara að leiðbeina ef þörf er á, en nota bene, börn sem ekki eru alin upp við aga og meðvitund geta ekki tekið á sig neina ábyrgð.

Börn í dag eru afar vel gerð og vita alveg hvað þau vilja.
Hlustum ávalt á börnin okkar


Frábær skemmtun

Rekstravörur  er eitt af þessum frábæru fyrirtækjum sem vilja að fólkinu sínu líði vel, til dæmis á tiltektardögum er fólkið klætt í einhverskonar grímubúninga og eru í þeim við sín störf þar til tiltekt byrjar, þetta er alveg frábært, þjappar fólki saman og kúnnarnir hafa gaman af, síðan er grillað um kvöldið og allir fara heim glaðir með að vinna á þessum stað.

golli_bro_ir.jpg

Hér eru tveir skrautlegir en voða sexý, þessi í bleika bolnum er
Ingó bróðir minn. Flott outfitt fyrir innkaupastjóra.

Fyrirgefðu elsku bróðir, mátti til að birta þessa mynd.


Fram í hugann kemur

Já nefnilega svo afar margt, Jóhanna bloggvinkona mín sagði við mig í komenti að það væri gott að eiga góða ömmu og afa og þá fóru hugsanirnar af stað hjá mér

Man fyrst eftir er ég kom til ömmu og afa, hef verið um fjögra ára og það sem er mér svo minnisstætt er að langamma Helga Beata lá í rúmi sínu orðin eitthvað lúin og veik, en átti samt mola í poka undir koddanum sínum til að gefa okkur smáfólkinu, man einnig frá þessum tíma eftir jólakökunni hennar ömmu, hún var æðislega góð.

Þegar þau voru flutt í Nökkvavoginn komum við að sjálfsögðu oft í heimsókn og man ég sérstaklega eftir jólaboðunum, jólatréð var sett á mitt gólf, Gummi frændi spilaði á píanóið og við dönsuðum í kringum tréð og sungum með, auðvitað voru borð hlaðin kræsingum þeirra tíma, gamaldags rjómatertum, randalínum, smákökum og ýmsu öðru, en maturinn var að sjálfsögðu hangikjöt með heimasoðnum grænum baunum, kartöflum og uppstúfi.

Man líka eftir búrinu hennar ömmu, sem var niður í kjallara, ég elskaði þegar amma bað mig að fara niður og ná í eitthvað, búrið var á stærð við svefnherbergið mitt í dag og í því gegndi ýmissa grasa,
eins og stórir kassar af þurrkuðum ávöxtum, sem maður laumaðist í, setti smá í kjólvasana og tróð upp í sig, en passaði upp á að vera búin að kyngja öllu er upp kom, auðvitað vissi amma alveg hvað var að gerast og hafði gaman að, hún var nefnilega prakkari mikill.

Amma og afi voru alla tíð afar sparsöm og það var synd að henda hvort sem það var matur eða föt, en nísk voru þau ekki, ég lærði heilmikið af þeim eins og bara af mömmu og pabba því þetta var bara svona í þá daga og ég fylgi þessu enn í dag, en þau leifðu sér það sem þeim langaði til afi fór í laxveiði og man ég eftir mörgum skemmtilegum ferðum í Víðidalsá sem var eiginlega áin hans afa, enda falleg á.

Man þegar ég var ófrísk af öðru barninu mínu kom upp í Belgjagerð mætti afa fyrir utan hann var að koma í vinnu eftir hádegisblundinn sinn og hann faðmaði mig horfði svo á mig og sagði áttu enga kápu tátan mín, ég varð víst eitthvað undrandi, hann tók upp veskið og rétti mér nokkra seðla og sagði: "Fáðu þér kápu fyrir þetta tátan mín", ég náttúrlega knúsaði hann fyrir, en mig vantaði enga kápu, en kápu varð ég að kaupa, maður gerði nefnilega eins og afi lagði fyrir mann, málið var að það var hásumar og afar heitt úti svo ég var bara í mínum óléttukjól, en auðvitað átti ég að vera í kápu það var svona snyrtilegra, fór og keypti mér létta kápu og notaði hana í botn sko er ég var orðin léttari.

Afi og amma voru klettarnir í mínu lífi, þau voru alltaf þarna og elskuðu mig og öll hin barnabörnin afar mikið, ég átti ætíð athvarf hjá þeim, það var hlustað á, ráðlagt og spjallað um málin.

img_0009_new.jpg

Takk elsku amma og afi, ég elska ykkur afar heitt.
Milla
Heart

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband