Þróunaraðstoð.

Las fallega og vitra grein í fréttablaðinu í gær eftir
þau Sigríði Snæbjörnsdóttur  hjúkrunarfræðing og Sigurð Guðmundsson
landlækni.    Þau voru að koma heim frá Malaví eftir eins árs dvöl þar
við hjálparstörf.  Þar kemur ýmislegt fróðlegt fram.
Talað er um að betra sé að kenna þeim að búa til peninga, en að ausa í þá fé.
Mikil viska er í þessu og sagði einn höfðinginn við þau:
,,hættið að gefa okkur peninga og gefið okkur menntun í staðinn."
Þau segja: ,,Það er eins og fólk bara bíði eftir að lífið renni hjá."
Blessað fólkið kann ekki og veit ekki betur.
Það þarf að uppræta spillinguna þarna, eins og annars staðar.

Það mætti einnig hugsa til fleiri staða sem eru okkur nær,
eins og okkar kæra land, það er víða pottur brotinn hjá okkur.
Svo er það sem mér svíður mikið þessa dagana,
það eru nágrannar okkar Grænlendingar, ég hef aldrei komið þangað,
en ég þjónustaði þá í mínu starfi í mörg ár og sá afar margt
sem betur mætti fara.
Gefum þeim sjálfsvirðinguna aftur.
Hún var tekin af þeim án þess að þeir gætu rönd við reist.
Þetta er alfarið mín skoðun, ef aðrir hafa skoðun á þessu máli
þá væri fróðlegt að heyra þær.
                           Góðar stundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir vitræn og auðskilin skrif.

Ég veit ekkert um Malaví, en hef lesið að það sem sent er þangað af matvöru skili sér að megninu til í hendur höfðingja einhverra sem deili því svo að mestu til ættmenna og vina, og þá aðallega til að styrkja valdastöðu sína.  Önnur saga var um stóra og dýra (mig minnir milljón dollara) sendingu varnarneta við moskítóvargnum.  Þar er sagt að fólkið þar hafi þegar haft meira en nóg af mosítónetum, en sem betur fer hafi þessi stóra sending ekki farið til spillis, heldur hafi öll verið notuð ----- í Brúðarkjóla.

Á okkar heimavelli, Íslandi,  er mikið starf óunnið, og margt fer líka til spillis.  Þannig að aðstoðar er ekki allstaðar þörf þeim sem hún er veitt, en þeir sem þurfa á hjálp að halda fá hana ekki.  Ég hef trú á því að yrði félagsskapnum "Mæðrastyrksnefnd" breytt í það form að hún hefði miklu víðtækara umboð í krafti stóraukins fjárstuðnings frá samfélaginu, auk öflugrar tengingar við landsbyggðina, myndi fátækt á Íslandi stórminnka. 

Og Grænland er þér hugleikið.  Og einnig mér.  Það er unun að sjá myndir frá skákmótum sem Hrókurinn hefur staðið fyrir þarna.  Einlæg og fölskvalaus bros barnanna endurspegla svo mikið þakklæti, og ber innri styrk ótvíræðan vott.  Fátt vekur sterkari von um framtíð þeirra.  Ég hef ekki séð myndir frá sundkennslu sem þau hafa fengið hérlendis, en heyrt að þar sé það sama uppi á teningnum.  Sjálfstraust og styrkur.   Mér dettur til dæmis í hug að Félags Íslenskra Radíóamatöra gæti átt gagnlegt erindi til Grænlands.  Það myndi gefa Grænlenskum unglingum mikil tækifæri að kynnast rafeindatækni og fjarskiptum, sem reynslan hér sýnir að leiðir yfirleitt til framhaldsmenntunar, og opna þeim fjárhagslega yfirstíganlega leið til að hafa samband við umheiminn.  Og þá meina ég ALLAN umheiminn.  Skátahreyfingin myndi áreiðanlega geta gert mikið gagn þarna líka.  Miðlað af reynslu sinni, og lært af reynslu heimamanna í hrikalegu landslagi.   Svo fremi sem þeir sleppi algjörlega þeirri kristilegu umgjörð sem víðast fylgir skátum  Það ætti bara að banna með alþjóðalögum að halda uppi hverskonar trúboði, öllum trúarkenningum.  

Aftur Takk, og hvatning til framhalds.  Skrifin þín vekja eldmóð. 

Ólafur Vignir Sigurðsson (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 20:31

2 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Takk Ólafur Vignir fyrir fallega undirtekt víð mínum skrifum. Þau trúarbrögð sem ég mundi vilja boða öllu mannfólki er að sína hvort öðru skilning og virðingu. Það er margt hægt að gera, en fyrst og fremst þarf fólkið menntun og eitthvað að gera annað en að slæpast allan daginn. Og mér finnast þessi skrif í blöðunum bæði hér og í Danaveldi, orðin svolítið langdregin, ég er búin að lesa þau og vita af þessu ástandi í 20ár, og  hefur þetta staðið lengur  man ekki hvenær innrásin byrjaði hjá þeim. Hvað hefur gerst? harla lítið sem ekki neitt.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 6.11.2007 kl. 19:39

3 identicon

Sæl og takk.

Ég tók ekki eftir viðbrögðum þínum fyrr en nú.  Þú fjallar um þessi mál af visku og þroska, eiginleikar sem mér finnst æ verða sjaldgæfari eftir því sem árin líða.

Upphaf hremminga Grænlendinga má rekja miklu lengra aftur í tímann en 20 ár. 320 ár væru nærri lagi.  Árið 1704 kom til Kaupmannahafnar 18 ára gamall Norðmaður Hans Poulsön Egede sem eiginlega síðan helgaði Grænlandi ævi sína og barðist fyrir þeirri menningarlegu innrás þangað sem við erum að sjá afleiðingarnar af í dag.  Hann virðist hafa haft sterkan fjárhagslegan bakgrunn, og var eigandi 300 ríkisdala hlutafjár af 5100 ríkisdölum heildarhlutafjár í "Det Bergens Grönlandske Compagnie, í daglegu tali kallað Bergenscompagniet sem stofnað var árið 1721.  Ég held að þetta fyrirtæki hafi verið orðið algerlega auralaust tveim árum seinna, allavega var leitað eftir nýjum hluthöfum og auk þess efnt til algerlega misheppnaðs happdrættis.  Ég er ekki nægilega sögufróður til að hafa á reiðum höndum  framhaldið frá einum tíma til annars, en Hans Egede er óefað mikill áhrifavaldur þess sem á eftir honum kom.  Ég veit ekki hvenær hann varð Danskur.  Eftir honum var nefndu bærinn "Egedesminde" sem nú heitir Aasiat, og börn þaðan held ég að hafi komið til sundkennslu í Kópavogi fyrir kannsi 3 árum síðan.  Líklega hefði sundkennsla komist fyrr á í Grænlandi hefðu mannfræðingar mótað samband Grænlendinga við umheiminn, en ekki Danir.  Fleiri þjóðir ásældust Grænland undir yfirskini kristindóms og verslunar og náðu sumir nokkrum árangri, Hollendingar og líklega líka Þjóðverjar.

Allavega eru þó Grænlendingar komnir á alþjóðakortið, og ég var að lesa að þangað væri gert ráð fyrir nýbúum, og viðtal við Grænlenskan þingmann, unga konu, sem tók skýrt fram að sú aðgerð yrði að vera á forsendum Grænlendinga.  Gaman að fylgjast með því.

Afsakaðu langlokuna, en skrifin þin setja eitthvað á stað í hugskotinu, allavega mínu, og hananú!

Kveðja

Ólafur Vignir Sigurðsson 

Ólafur Vignir Sigurðsson (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 22:44

4 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Þakka þér fyrir langlokuna, Ólafur Vignir, ég hef nú ekkert á móti henni því hún er afar fræðandi.

Auðvitað hefur yfirtaka í landinu byrjað fyrir öldum síðan eins og hjá mörgum öðrum þjóðum, en það sem er mest um vert núna er, framkvæmdin í dag og vona ég að hún gangi vel upp hjá Grænlendingum.

Kveðja Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 2.12.2007 kl. 10:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.