Skyldulesning

Þetta er alveg frábært bréf sem Eyrún Ýr sendir til
Fjármálaráðherra og aðstoðarmanns forsætisráðherra.

2.10.2010 | 13:23

Ágæta ríkisstjórn

Almennt - laugardagur 02.október 2010 - Hafþór Hreiðarsson - Athugasemdir (3)

Ég er Íslendingur. Ég er líka háskólamenntuð kona með fjölskyldu sem hef kosið að búa á landsbyggðinni, án þess að átta mig á hversu hættulegt það gæti verið. Nú heyrast fréttir af því að hér á Húsavík skuli heilbrigðisþjónusta sundurtætt á einu bretti, en lítið rætt um afleiðingarnar. Gera  menn sér ekki grein fyrir alvarleika málsins?

 

Afleiðingarnar eru nefnilega ekki aðeins þær að við sem hér búum þurfum að leita lengra eftir heilbrigðisþjónustu, með tilheyrandi tíma, kostnaði, umstangi og áhættu.  Leiðin til Akureyrar er kannski bara rúmir níutíu kílómetrar en það getur verið ansi mikið í vondum veðrum. 

 

Nei, alvarlegasta afleiðingin er sú að tugir fólks missa vinnu sína og þar með lífsviðurværi sitt. Tugir einstaklinga sem fæstir hafa nokkra von  um að finna önnur störf í sinni heimabyggð. Og hvað á þetta fólk að gera? Margir velja eflaust að leita sér nýrra heimkynna og flytja með sér maka sína og börn en aðrir standa eftir í vonleysi - því sumum reynist erfitt að fara. Hvernig á þetta fólk til dæmis að geta selt húsin sín? Og hvernig á það að geta komið undir sig fótunum annars staðar ef það selur þau ekki? Trúlega hafa fréttir af fyrirhuguðum niðurskurði á einu bretti fryst fasteignamarkaðinn hér. Kannast ríkisstjórnin ef til vill ekki við hugtakið átthagafjötrar? Þeir geta jú verið efnahagslegir ekki síður en huglægir.

Og við sem ekki viljum fara og enn höfum vinnu, hvernig verður okkar samfélag ef grunnþjónustan en jöfnuð við jörðu? Fólksfækkun leiðir af sér minni tekjur sveitarfélagsins og þar með óhjákvæmilega niðurskurð, sem aftur leiðir af sér lakari búsetuskilyrði.  Hvernig framtíð bíður þá barnanna okkar? Hvar endar þetta?

Við sem búum hér tókum lítinn þátt í góðærinu svokallaða, við fengum engin kúlulán og engar afskriftir. Við hins vegar erum sek um þá yfirsjón að hafa talið öruggt að búa utan höfuðborgarsvæðisins og fyrir það munum við gjalda. Við erum nógu góð til að taka þátt í björgun bankamanna og stjórnmálaelítunnar; skattahækkanir og niðurskurður talin hæfa okkur allra best, en þegar kemur að atvinnu og mannsæmandi lífsskilyrðum komum við ríkisstjórninni ekki við.

Ágæta ríkisstjórn: Þar sem það er nú orðið ljóst að velferð okkar skiptir ykkur engu vil ég tilkynna ykkur að það er gagnkvæmt. Það er því einlæg ósk mín að þið segið starfi ykkar lausu svo fljótt sem auðið er og gefið öðrum tækifæri til leiða þjóðina út úr þessum erfiðleikum.

Eyrún Ýr Tryggvadóttir

Bréf þetta sendi Eyrún Ýr fjármálaráðherra og aðstoðarmanni forsætisráðherra.


mbl.isSegja niðurskurðinn árás á byggðina

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvernig væri að allir sendu þeim svona bréf og uppsagnarbréf á alla þingmennina og ráðgjafahersinguna í leiðinni.

Knús í hús

Jónína Þorbjörg Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 3.10.2010 kl. 08:52

2 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Það væri reynandi, en ég held að uppreisn sé bara áhrifameiri.

Knús til þín

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 3.10.2010 kl. 10:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.