Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010
Yndisleg helgi að taka enda
28.2.2010 | 10:54
Helgin byrjaði á ferð fram í Lauga að sækja englana mína, þeim langaði til að koma til ömmu og afa um helgina, nú ekki fórum við án þess að fá okkur kaffi í eldhúsinu hjá Dóru minni og Jónu og áttum við skemmtilegt spjall saman. Er til baka kom var farið að versla og það kom mér svo sem ekkert á óvart að afi vildi fá rétt í kvöldmatinn, sem heitir, "Mér er alveg sama" þær vildu aftur á móti rétt sem nefnist,
" veit það ekki" kann nú hvorugan að elda svo ég sagði: ,, þið fáið 5 mín þá kaupi ég pulsur" ekki lengi að ákveða sig þá, því pulsur eru sko ekki í uppáhaldi hjá þessum englum, þær völdu hammara og franskar, Humm, jæja það var allt í lagi, síðan var keypt bunch af ávöxtum og grænmeti og farið heim að elda. Það gerðist að amma gamla vakti til eitt um nóttina við að spjalla við þær, það er nú það skemmtilegasta sem ég geri að spjalla við barnabörnin mín.
Um hádegi á laugardeginum hringdi Milla og spurði hvort ekki mætti bjóða ömmu í fjallið að horfa á Aþenu Marey renna sér á skíðum, jú ég vildi það sko, og það var alveg þess vert, hún er svo dugleg og flott, bara rétt að verða sex ára að amma er yfir sig stolt af þeim öllum. Viktoría Ósk var á kóramóti. Nú svo fékk ég að koma í nýja bílinn þeirra, en hann heitir Grand Cherokee, ekkert smá flottur.
Milla fór svo á heimleiðinni í Samkaup fyrir mig, vantaði smá, við ætluðum nefnilega að borða saman um kvöldið, ég var með svínacullas sem ég steikti í sérstöku hot kryddi, ofnbakaða kartöflubáta, dassaða með dilli, hvítlauk, olíu og pipar, síðan voru grjón og súrsæt chillý sósa og sýrður, þetta er æði.
Nú það var spjallað heilmikið saman yfir kaffibollanum, Milla og englarnir voru að spjalla um myndatöku og boðskortin í útskriftina, það eru sko spennandi tímar framundan.
Er þau voru farin heim héldum við stelpurnar áfram að spjalla og spjölluðum saman til að ganga 24 aðallega var spjallað um mat í veisluna og föt. Er þær vakna á eftir þá ætlum við inn á Yes Stile að skoða föt, spennandi.
Nú svo fara þær heim eftir yndislega helgi nóg að gera í skólanum hjá þeim og verður trúlega fram á vor.
Hér sitja englarnir mínir, önnur að prjóna hin í tölvunni
Sérkennileg birta yfir þessari mynd.
Takk elskurnar mínar öll fyrirfrábæra helgi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Passaðu hjartað þitt
25.2.2010 | 08:50
Sporðdreki:
Njóttu athyglinnar sem þú vekur, en passaðu hjartað þitt.
Einhver reynir að stjórna þér, spyrntu við fótum.
Hef nú svolítið gaman að þessari vitleysu á stundum, en tel það eigi alltaf svo vitlaust. Ef ég fæ mikla athygli þá kann ég alveg að skilja á milli hvort fólk veitir mér hana í einlægni, hræsni, smjaðri eða bara að því að því finnst ég vera stórskrýtin, þeir sem veita mér hana í einlægni eru vinir mínir, eða þeir sem eru með kærleika í sér, í hræsni er bara slæmt fyrir þá sjálfa, eins er með smjaðrið eiginlega tel ég það bera vott um lágt sjálfsmat, eins og fólk haldi að það upphefji sjálfan sig með smjaðri eða að það er að reyna að fá mann til að gera eitthvað. Síðan eru þeir sem álíta mig stórskrýtna, það er að mínu mati fólkið sem á eftir að þroskast afar, ekki er ég að setja út á það því við erum öll á misjöfnu þroskastigi. Ég er örugglega stórskrítin eins og við mörg erum talin, en hver hefur leifi til að dæma aðra og hvað er að vera stórskrýtin? Þannig að ég kann alveg að njóta þeirra athygli sem er gefin af heilindum.
Við þurfum öll að temja okkur að bera virðingu fyrir fólki, skoðunum þess og framkomu svo framalega sem framkoman særir ekki aðra.
Að einhver sé að reyna að stjórna mér, það er afar erfitt að ná þeim tökum á mér núorðið, nema að hjartað bráðni, aðallega eru það barnabörnin sem bræða ömmu sína, en þau eru ekki að stjórna eins og fullorðna fólkið gerir.
Hér áður og fyrr var hægt að stjórna mér með hinum ýmsu aðferðum, en eins og ég hef sagt þá þroskast maður og lærir.
Þetta kom nú allt út frá þessari stjörnuspá, ekki að ég trúi á hana sem slíka þó ég trúi á alvöru stjörnuspár og kort, en það vakna oft svona hugsanir hjá mér við að lesa eitthvað á morgnanna og þá læt ég það bara flakka.
Kærleik í daginn ykkar
Milla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Duldar langanir
24.2.2010 | 09:41
Hef nú aldrei heyrt aðra eins vitleysu, fyrir það fyrsta les ég aldrei skáldsögur er með eina í takinu held að hún sé búin að vera á borðinu síðan fyrir jól og aldrei mundi ég nú fara að skrifa eina slíka, þessar stjörnuspár eru ekki að passa, allavega ekki oft.
Sporðdreki:
Þú hefur yndi af skáldsögum og lætur þig dreyma um
að skrifa eina sjálf/ur. Gefðu þér góðan tíma til að
undirbúa jarðveginn.
Nema ef ég mundi skrifa um duldar langanir og höft sem konur þora ekki að koma fram með er um kynlíf er að ræða, það er eins og þær láti karlmanninn ætíð ráða för og láta sér bara linda það sem hann býður upp á, sem er stundum bara ekki neitt, ég er langt frá því að tala um allar konur, sem betur fer eru til konur sem vilja fá sitt og ef þeir geta ekki veitt þeim það þá bara er það þeirra missir.
Það eru einnig til karlmenn sem elska að dúllast við þá konu sem þeir eru að hafa mök við, þeir fá mikið út úr því að koma konunni upp á hæðstu hæðir, að hún sleppi fram af sér tökunum og sýni í sér Tígrisdýrið.
Svo eru einnig til karlmenn sem ekki snerta konuna sína, finnst það ógeðsleg, vilja bara hoppa og búið, ég gæti nú endalaust talið upp.
Sumar konur vilja bara að karlmaðurinn ljúki sér af sem fyrst, annaðhvort eru þær konur afar heftar eða að þeim er alveg sama um karlinn, eða þær halda það, sko það er hægt að tala saman, leiðbeina manninum, kannski kann hann bara ekki betur og heldur að hann sé æðislegur, spyr endalaust, var hann ekki góður við þig, var þetta ekki gott og konan er með æluna upp í háls yfir egóinu í karlinum, hún veit kannski ekki að hún getur breytt þessu, það er ef hún vill.
Allar konur hafa það í sér að vera sexí, þær þurfa bara að þora því, koma fram eins og þær vilja, ekki fela sig á bak við einhverja grímu bara að því að þær halda að þær séu púkó lummó,leifa öllum tilfinningum að flæða og elska sjálfan sig.
Kynlífið er æðislegt alveg frá því að maður byrjar að hugsa um það í vinnunni, búðinni, eða hvar sem er, og svo er maðurinn kemur heim byrjar daðrið, gefa í skyn, allir hafa sýnar aðferðir við að sýna hvað er í vændum allt þetta er forleikur að æsilegri ferð í rússíbananum.
Var nefnilega að lesa um svona nokkuð í gær og datt í hug að setja það á blað, en að ég fari að skrifa skáldsögu er af og frá.
Nú hugsar hver fyrir sig hvort þeir eigi gott kynlíf með sínum maka, allt er hægt að laga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Morgungleði
22.2.2010 | 09:30
Er bara ekki að skilja ruglið í þessu fólki og þau telja að við trúum öllu, talað er um að nú sé verið að vinna saman að lausn mála, en samt geta sumir undir rós, svona aðeins pikkað í hina, jæja ég nenni ekki að tala um það.
Í gær átti eini sonur minn og yngsta barn afmæli, hann varð 37 ára, konan hans er Solla og eiga þau 4 börn, Kamillu Sól 12 ára, Viktor Mána 9 ára, Sölva Stein 2 ára og svo litlu óskýrðu mýuna, sem er 1 mánaða, en það á að skýra hana 1 apríl og það er ekki gabb.
Fúsi minn með Sölva Stein og Mýuna nýfædda
Systur, elst og yngst.
Viktor Máni með mýuna, yndisleg saman, hann er stoltur bróðir
Þetta er hún Solla mín með Millu minni, flottar mágkonur.
Sú sem á okkur öll er hún mamma og verður hún að vera með,
henni langaði svo í pulsu með öllu og fékk það.
Tekið er við vorum í bænum síðast.
Þetta er nú Fúsa og Sollu fjölskylda og hlakka ég mikið til að
hitta þau í endan mars.
Kærleik í daginn
Milla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Konudagurinn
21.2.2010 | 08:57
Hef nú aldrei gert kröfur um hvorki eitt eða neitt á þeim degi, en aftur á móti mundi ég kjósa að allir dagar væru fullir af ást gleði og virðingu, veit ég vel að það er að fara fram á of mikið því engin er fullkomin.
Sýndarmennska á háu stigi hjá mörgum.
Tökum þá menn sem allt árið gera sama og ekki neitt,
hvorki fyrir konuna eða heimilið, svo kemur konudagur
þá er farið út í búð og keyptur flottur blómvöndur, bara
svo að konan þurfi ekki að segja að hún hafi ekki fengið
blóm ef það mundi gerast að einhver spyrði, nú aðrir gefa
blóm að því að þeir hafa samviskubit, nú kannski vegna þess
að þeir eru búnir að eyða heilmiklu í sjálfan sig, eins og
veiðileyfum, sem þarf að kaupa á þessum árstíma
Allavega panta og staðfesta, en svo eru örfáir sem kaupa blóm
að því að þeim langar til að gleðja, nei sko ekki konuna heldur
egóið í sjálfum sér.
Og allir gangast upp í þessu fjandans rugli, dagurinn búin að
missa gildi sitt rétt eins og jólin.
Sönn saga.
Maður nokkur var nokkrum dögum fyrir konudag búin að neita
að kaupa stígvél á eitt barnið sitt, barninu sárvantaði stigvél.
Á konudaginn kom hann heim með blómvönd og það engan smá,
þá sagði konan að honum hefði verið nær að kaupa stígvél á
barnið, maðurinn brjálaðist, henti blómvendinum í ruslið, en
konan fór svo á mánudeginum og keypti stígvél á barnið.
Falleg saga eða hitt þó heldur.
Tek það fram að á mínu heimili í dag, sem er langt frá því að vera fullkomið, komum við okkur saman um hlutina, á bóndadaginn fórum við og keyptum helling af Þorramat, sem betur fer því svo lenti ég á sjúkrahúsi og Gísli hafði þá nóg að borða meira að segja fór hann og keypti sér sviðahausa og sauð sér, en svona matur er einu sinni á ári matur því hann er bara ekki hollur fyrir okkur.
Í gærmorgun fórum við og ég keypti mér það sem ég vildi borða og varð vínarsnitzel fyrir valinu, það er einnig matur sem er afar sjaldan á borðum hjá okkur, vegna þess að við erum hætt að borða svona brasað, margt annað keypti ég sem mig langaði í, en Gísli keypti sér piparmola af nammi barnum, hann er verri en krakkarnir.
Ég eldaði síðan minn mat sjálf í gærkveldi og við borðuðum af bestu list, maturinn var æði nema að þetta var ekki ekta, Kálfakjöt á það að vera, en var svínakjöt, æði samt. Heilsunammi í eftirmat.
Þar sem ég er nýbúin að fá svo mikið af fallegum blómum og erum að fara suður þá ákváðum við að engin yrðu blómin keypt í ár, maður þarf nefnilega að gera plan um í hvað peningarnir fara.
Blómin eru yndisleg, en ef maður og kona geta ekki komið hvort öðru á óvart allt árið með hinum ýmsu uppákomum, þá er sambandið glatað.
Ljós og gleði til ykkar allra
Milla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Brestir.
19.2.2010 | 20:33
Já hverjir eru mínir brestir, jú þeir eru ótal og hafa verið í gegnum árin, bara rétt eins og er ég vildi vera fínust og flottust, það kallast snobb, drottinn minn dýri hvað ég var heimsk að taka þátt í þessu og það var mér meira að segja á móti skapi.
Ætíð vissi ég betur en aðrir og mínar skoðanir voru ætíð réttar, bull og rugl, en sem betur fer þroskaðist ég eftir því sem ég varð eldri, núna í áraraðir virði ég skoðanir annarra, og ætlast til að aðrir geri það sama við mínar skoðanir, það er nefnilega svo misjafnt hvernig við mannfólkið lítum á málin og hver á að dæma hvað er rétt í þeim.
Hvernig manneskja ert þú ?
Result: Sjálfstæð manneskja.Þú vilt gera allt á þinn hátt, ert svolítið stjórnsöm/samur en samt í hófi. Þú vilt hafa allt í röð og reglu og vilt ekkert hangs með að gera hlutina. Þú segir að þú ætlir að gera eitthvað og stendur svo sannarlega við það. Sumu fólki líkar það í fari þínu en sumt fólk ...fær hreinlega ógeð þannig ég myndi passa mig svolítið, en samt alltaf gott að vera sjálfstæð því þá kanntu að koma þinni skoðun á framfæri.
Þetta kom út úr könnun um hvernig manneskja ég er, og er ég nokkuð stolt af þessu, á mjög vel við mig.
Að vera stjórnsöm er brestur stór, en hann hefur með árunum minkað afar. Ég vil hafa allt í röð og reglu og þoli ekki óreiðu, það er jú brestur, en trúlega kemur mér einni við, nei núna fór ég í meðvirkni með sjálfri mér, að vera með fullkomnunaráráttu kemur öllum við í kringum mig.
Að hangsa við hlutina og gera illa það sem er verið að gera, kalla ég að vinna fyrir aftan rassgatið á sér, og tel það vera óþolandi vinnubrögð. Ég vil frekar hafa draslarý hjá mér í einn dag í viðbót og vinna síðan vel að málum.
Hjá mér mega samt allir vera eins og þeir vilja, ég súta það ekki þó að blotni dúkar eða brotni eitthvað drasl, þetta eru hvort sem er dauðir hlutir.
Já ég stend svo sannarlega við það sem ég segi, það getur nú varla kallast brestur því það er mín ákvörðun, hvort sem hún er jákvæð eða neikvæð, sko þá aðallega í skoðunum annarra.
Nú ef einhver fær ógeð á mér í sambandi við mína bresti eða kosti þá er það ekki mitt mál, svo einfalt er það.
Svo er eitt, hvað eru brestir, hver á að dæma um það og ef ég er ekki að meiða neinn þá má ég bara hafa allt eins og ég tel vera rétt og satt.
Annað sem fólk skal athuga, það hefur engin leifi til að dæma, vera með fordóma eða setja út á mínar skoðanir.
Þeir sem þekkja mig skilja að ég er að vinna er ég skrifa svona og ég þarf að koma þessu frá mér og tel ég bloggsíðuna mína góða leið til þess.
Ljós og gleði til ykkar allra
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vaknaði við símann í morgun
17.2.2010 | 13:32
Það var Milla mín að spyrja hvort ein lítil mætti vera í dag, eins og það þyrfti nú að spyrja að því.
Nú við drifum okkur á fætur í sturtu og morgunmat, þá kom hún litla ljósið klædd sem lítið barn með freknur, það er nú einu sinni öskudagurinn þó maður geti ekki farið út og fengið sælgæti út á smá söng, þá er það allt í lagi því afi fór bara niður í búð og keypti bæði hollt og óhollt,
Við borðuðum svo brauð með skinku eggjum og tómötum og að sjálfsögðu mjólk með, núna kúrir hún undir sæng og er að horfa á mynd.
Hér er fallega ljósið mitt, var að horfa á jólamyndbönd á You Tube
Og hér er hún einnig þessi elska.
Þegar hún kom í morgun vildi hún fara með vísu fyrir ömmu, við
settumst í sófann í stofunni og hún færði mér þessa yndislegu vísu
sem hún lærði á leikskólanum.
Þumalputti er mamma
sem var mér mest og best
vísifingur er pabbi
sem gaf mér rauðan hest
langatöng er bróðir
sem býr til falleg gull
baugfingur er systir
sem prjónar sokka úr ull
Hér er allt fólkið
svo fallegt og nett
fimm eru í bænum
ef talið er rétt
ósköp væri gaman
í þessum heim
ef öllum kæmi saman
jafn vel og þeim.
Amma táraðist, hún fór svo fallega með þulu þessa
og það væri svo óskandi ef allt gæti verið
svona á milli fólks.
Kærleik í daginn ykkar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Að vera sjálfum sér trúr
14.2.2010 | 17:37
Er bara ekki auðvelt, það er að segja ef ég vill ekki verða óvinsæl, talin skrýtin eða vera bara ekki með á nótunum, þeim nótum sem flestir telja vera réttar.
Allt lífið hef ég verið að þroskast, breytast, hreinsa út, sem tekur allt lífið að gera. Síðan ætla ég að byrja að lifa samkvæmt því sem mér finnst farsælast, sko fyrir mig, er ekki að ætlast til að aðrir geri slíkt hið sama, en þá fara þessir aðrir jafnvel að stjórna því þeir eru svo fastir í því hvernig á að lifa lífinu, sem ég er ekki tilbúin að samþykkja að sé það rétta fyrir mig.
Að segja sannleikann og svara samkvæmt því sem mér finnst vera rétt fellur ekki ætíð í kramið, fólk þarf ætíð að taka öllu svo persónulega, argast út í mig, kann ekki að virða það sem mér finnst vera sannleikur, sem þarf ekki að vera réttur, en hann er allavega mín skoðun.
Oft er ég er búin að segja eitthvað við einhvern kemur óttinn, missterkur, en ég þarf að skoða hann og oftast er hann frá einhverju gömlu og reyni ég að hreinsa hann út það er nefnilega í lagi að segja það sem manni finnst og sá sem maður segir það við á að hafa þroska til að taka því rétt.
Allir þurfa að lifa í öryggi og vera hamingjusamir allavega ég, það getur tekið langan tíma að ná því markmiði og jafnvel mörg líf.
Ef ég er spurð hvort ég sé hamingjusöm, segi ég já, því að mörgu leiti er ég það, ég er yfirmáta hamingjusöm með mitt fólk og afar þakklát fyrir það líf sem ég á í dag, en lengst niðri í sálartetrinu er ég ekki hamingjusöm því ég á svo mörg mál óleyst og úthreinsunin er langt frá því að vera búin, ég er bráðlát og málin eiga að gerast helst í gær, en svoleiðis gerast ekki kaupin á eyrinni, helst vildi ég ráðast að öllum þeim sem ég á eitthvað óuppgert við og afgreiða þau mál, en ef ég mundi gera það mundi sá sem ég réðist að ekkert vita hvað ég væri að babla um því engin sér málin eins. Þarf að vinna þetta með sjálfri mér og þolinmæðin þrautir vinnur allar.
Málið er að ef ég ætla að vera trú sjálfri mér, þá særi ég mann og annan, ef ég er ekki trú sjálfri mér særi ég og svík sjálfan mig stórum, " Hvort er betra?"
Kærleik og gleði til ykkar allra
Milla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Að ná aganum
11.2.2010 | 10:51
Yfir sjálfum sér og hafa gaman að því.
Mér þykir það afar merkilegt, fyrirbærið, maðurinn allt sitt líf berst hann við að ná aga yfir sjálfum sér, allavega ég og sé það svo vel er ég lít tilbaka, sé sjálfsblekkinguna og hina endalausu lygi, feluleik og meðvirkni með sjálfum sér. Stelpurnar mínar Dóra og Milla hjálpa mér stórum við að minna mig á hvernig ég var í raun.
Alveg frá því að ég man eftir þá barðist ég við eitthvað, en út á við var allt svo slétt og fellt. Í dag þegar blákaldur sannleikurinn blasir við þá sé ég að ekki náði ég þeim aga sem til þarf, það segir heilsan, offitan og allt sem því fylgi. Nú hef ég val um hvort ég vilji fara sex fetin, í hjólastólinn og missa af öllu eða aga sjálfan mig og fá heilsuna að svo miklu leiti sem hún næst aftur.
Ég ætla með hjálp trúarinnar á æðri mátt, á sjálfan mig, alla sem vilja hjálpa mér, að velja að efla heilsuna, því ég hef svo mikið að lifa fyrir
Hef verið að lesa heilmikið um agann og það að ekki er hægt að stíga spor tvö fyrr heldur en spori eitt er náð fullkomlega, með aga í gleðinni, því ef þú hefur ekki gaman að þessu þá getur þú sleppt því, maður þarf að finna straumana sem gleðin gefur til að ná árangri.
Sögur um agaleysi, maður nokkur sem var vinur foreldra minna gat borðar 10 sviðakjamma og renndi þeim niður eins og ekkert væri, Pabbi minn elskaði að fá sér stórar smörebröd þá var áleggið og gumsið þar ofan á 10 sinnum hærra en brauðið, og eigi dugði ein, enda borðaði hann á sig sykursýki ll, heima voru soðnir 10 sviðahausar og mamma bjó til sviðasultu, en áður en sviðin komust í sultu borðaði hún hnakkaspikið af svona 10 kjömmum, þetta er náttúrlega ekki normalt og algjört agaleysi.
Til með að segja ykkur, er ég kom heim af spítalanum þá fékk ég óstjórnlega löngun í toppís ég borða aldrei ís og þessa löngun hafði ég í marga dag, en komst yfir þessa vitleysu, hugsið ykkur annað eins.
Föðurafi minn átti sko til agann þegar hann var á miðjum aldri veiktist hann eftir það borðaði hann ekkert rjómasull eða aðra óhollustu, nema hann borðaði eina sneið af rjómaköku á jólum, hann var agamaður mikill.
Já mér finnst það merkilegt, að ég skuli hafa verið svona agalaus við sjálfan mig vitandi fyrir víst undir niðri að ég var að skemma líf mitt, vonandi tekst mér að snúa þessu dæmi við.
Kærleik og gleði til ykkar allra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Þetta er nú gott og blessað
9.2.2010 | 09:55
Að mínu mati ætti að setja svona nefnd yfir ríkisbatteríið í heild sinni, eða setja á utanþingsstjórn, sem yrði þá skipuð góðum og réttlátum harðstjórumm.
Bara mín skoðun.
Fjárhaldsstjórn skipuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)